<$BlogRSDUrl$>
Ömmurnar
Kom hjem til mig, vær ikke så længe ude... ML-blogg

maí 11, 2004
Þegar ég var 6 ára var helsta áhyggjuefnið mitt, hvort mýsnar úti í haga myndu bíta nefið af barbídúkkunni minni ef ég gleymdi henni úti yfir nótt.

Um helgina var ég í heimsókn hjá einni 6 ára sem hefur um annað að hugsa. Við frænkurnar tókum fyrstu vakt í fjárhúsunum, kl 2 um nóttina (ég veit að þið eruð að hugsa hvort ekkert uppeldi sé á börnunum í þessari fjölskyldu). Ég var nýbúin í sturtu, skellti handklæði á hausinn og skundaði í fjárhúsið með skotturófunni minni, fullviss að allt gengi vel og að engin kind færi að taka upp á því að bera á svona ókristilegum tíma. Við renndum augunum yfir endalausa breiðu af hvítri ull, kindum sem eru svo líkar að þær gætu alveg eins verið Dollý.is nýklónaðar og fínar. Þegar við höfðum skannað svæðið og ætluðum inn í hlýjuna, undir sæng, sáum við eina sem lá hálf undir jötunni og maginn á henni gekk upp og niður eins og hún hefði skellt sér upp á Skjaldbreið á góðum degi. Við frænkurnar sáum að þarna var komin fyrsta vísbendingin um að brátt myndi reyna á ljósmóðurhæfileika okkar og settum okkur í stellingar. Kindin var ekki alveg á því að við ættum að hjálpa henni, enda 50 aðrar í stíunni sem allar vildu vera viðstaddar fæðinguna. Við komumst þó að henni og eftir tilsögn frá 6 ára frænku minni færði ég mig fram á kindina og reyndi að róa hana á meðan litla skottið mitt bretti upp ermarnar. Brátt sáum við að þetta myndi ekki ganga snuðrulaust því aðeins sást í einn fót og snoppuna. Ég ætlaði að fara að koma með eitthvað gáfulegt til að sýnast hafa vit á þessu og sú litla gæti lært af mér, en þegar ég snéri mér að litlu frænku sá ég að hún var búin að kafa með hendina upp að olnboga til að ná hinum fætinum út. Hún þurfti að kanna allt legið að innanverðu til að sannfærast að hér væri eitthvað mikið að, þurrkaði slímugar og blóðugar hendurnar í ullina og fór og náði í pabba sinn! Ég sat við andlitið á kindinni og sagði brandara á meðan. Í ljós kom að lambið sat fast og eftir mikil læti og átök, kom lambið út, með háls á við gíraffa eftir allt togið. Sú litla skolaði á sér hendurnar, setti puttann í munninn og kúrði svo í hárinu á mér yfir nóttina. 5 klukkutímum seinna var hún vakin, maðurinn á næsta bæ þarfnaðist hjálpar með fast lamb. Hún var svo sifjuð að mamma hennar tók vaktina fyrir hana, sem betur fer, því að það lamb var ekki eins heppið, því það lést og skera þurfti af því hausinn með bitlausum hníf.

Vill einhver koma í barbí....

Matta